--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Fim. 8. febrúar 2001
Baulaða nú Búkolla mín…

Frá örófi alda hefur maðurinn stundað kynbætur á búfé sínu. Hvort sem það hefur verið vegna meiri fallþunga eða betri afurða, þá hefur manninum tekist að mæta þörf sinni fyrir fæðu með því að leggja sig fram við að rækta upp stofna sem gefa sem mest af sér og nýta þannig land og tíma bóndans sem best.

Íslenskir kúbændur hafa undanfarin misseri unnið að því að bæta kúastofninn íslenska með norkum fósturvísum af hinu svokallaða NRF-kúakyni. Íslenski kúastofninn er lítill og þess vegna leita kúabændur til frænda okkar, Norðmanna, með fósturvísa til að bæta stofninn. Eðli málsins samkvæmt er auðveldara að stunda kynbætur á stórum stofni en litlum. Hafa menn brugðist misvel við þessu, sumir fagnað en aðrir litið á þetta sem einhverskonar svik við hina íslensku Búkollu. Sumir hafa gengið svo langt að tala um „feigðarkoss“ Guðna Ágústssonar, þegar hann kyssti kúna Skautu í fjósinu á tilraunabúinu að Stóra Ármóti, þar sem boðað var til blaðamannafundar 31. október s.l. þegar innflutningur var heimilaður á fósturvísunum norsku.

Umtalsverðu fé hefur verið varið til verkefnisins, bæði af Landssambandi kúabænda og landbúnaðarráðuneytinu. Kúabændur telja sig svo fámennan hóp og markaðinn svo lítinn að nauðsynlegt sé að vera samstíga í ræktunaraðgerðum sem þessum. Á fulltrúafundi LK í vikunni var verkefninu frestað um óákveðinn tíma og ákveðið að ganga til atkvæðagreiðslu meðal kúabænda um málið. Því er ljóst að verkefnið tefst og hugsanlega gæti það verði slegið af með öllu.

Mönnum hefur hinsvegar tekist núna, ekki síst í ljósi fregna af kúariðu erlendis, að færa umræðuna á þjóðernislegt plan. Íslenski kúastofninn sé hreinn og honum megi ekki spilla. Þetta setja menn fram þrátt fyrir að vitað sé að kúariðan getur ekki borist hingað með þessum hætti, enda allt gert undir ströngu eftirliti og vinnureglum og því eiga engir sjúkdómar að geta borist í kýrnar með fósturvísum. Finnst manni stundum sem þessir menn séu haldnir kúa-rasisma, öll önnur kúakyn virðast óæðri hinu íslenska.

Slíkur málflutningur er afskaplega barnalegur og ættu kúabændur og almenningur að sjá hag sínum best borgið með að hér sé stuðla að betra kúakyni. Bætt mjólkurskil og minni framleiðslukostnaður á mjólk og kjöti hljóta að koma neytendum til góða. Má einnig benda á í þessu samhengi að hænsnastofninn sem hér er notaður á rætur sínar að rekja til Ítalíu enda sá frumíslenski einfaldlega of óhagkvæmur til að rækta hér hænur í stórum stíl.

Það er vonandi að fósturvísarnir norsku hafi ekki verið kysstir „feigðarkossi“ af kúabændum og hver veit, með kynbættum kúastofni geta íslenskir kúabændur e.t.v. stundað sinn búskap án þeirra tæpu fjögurra milljarða sem þeir fá nú í styrki frá ríkinu, fáir myndu baula við það.

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............