--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Sun. 18. mars 2001
Refsaðu mér!

Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Bachman lögðu fram frumvarp til laga um breytingar á hegningarlögunum í síðustu viku. Breytingarnar sem þessi meirihluti þingflokks Vinstri-grænna vill ná fram eru eitthvað á þessa leið:
„Hver sem greiðir fyrir kynlífsþjónustu af einhverju tagi skal sæta fangelsi allt að 4 árum [og hver sá] sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“ Auk þess sem „[h]ver sem býður upp á kynferðislegar nektarsýningar og hefur þar með nekt annarra sér að féþúfu og til sölu skal sæta allt að 4 ára fangelsi. Sömu refsingu varðar það að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur.“ „Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir [stundi vændi] eða hefur tekjur af kynlífsþjónustu sem aðrir veita, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.“

„Ef klám birtist á prenti skal sá sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum sæta sekt um eða fangelsi allt að 1 ári [svo og sá sem] er ábyrgur fyrir að auglýsa í fjölmiðlum eða á opin berum vettvangi aðgang að klámi í hvaða mynd sem það er fram borið.“

Í greinargerð með frumvarpinu er tónninn gefinn: „Samkomustaðir, svokallaðir nektardansstaðir, hafa skotið upp kollinum bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Mikilvægt er að stemma stigu við slíkri starfsemi hérlendis.“ Einnig er tekið fram að einkadansar tíðkist á stöðunum hér en ekki í Danmörku og Noregi.

Frumvarpinu er greinilega stefnt gegn svokölluðum erótískum stöðum, sem hér hafa skotið upp kollinum síðustu árin. Frumvarpið ber sterkan keim þess púritanisma sem ákveðnir einstaklingar, m.a. Kolbrún Halldórsdóttir, hafa haldið hér á lofti. Skemmst er að minnast þess þegar fréttir bárust af því að á Íslandi væri vændiskona á hverja hundrað karlmenn, m.ö.o. 1% kvenna á Íslandi væru vændiskonur. Sú tala hefði þýtt að a.m.k. annar hver karlmaður á Íslandi leitaði til vændiskvenna reglulega og því tóku fæstir mark á tölfræði skandinavísku femínistanna, sem settu þetta fram.

Þegar skandinavísku femínistarnir kynntu tölfræði sína, bentu þær sérstaklega á að hér væru tiltölulega margir erótískir staðir og mikið um einkadansa þar. Bentu þá margir á á móti, að e.t.v. væri skýringin á þessu sú, að á Íslandi væri vændi tiltölulega lítið, m.v. aðrar þjóðir og því værir „þörfin“ fyrir þessa þjónustu meiri hér en annarsstaðar þar sem menn gætu einfaldlega orðið sér út um vændiskonu og þyrftu ekki að láta einkadansinn nægja. Það verða a.m.k. fæstir varir við að hér sé mikið um vændi á götum úti, ólíkt því sem gerist í borgum landanna í kringum okkur.

Meirihluti þingflokks Vinstri-grænna stendur að baki þessu frumvarpi. Þingmenn Vg virðast halda að ein helsta ógnin sem stafi að landinu séu erlendir klámhringir og að Reykjavík sé að verða kynlífsparadís norðursins í augum útlenskra klámhunda sem hingað streyma.

Þetta ætlar stórskotalið Vinstri-grænna að stöðva með lagasetningu. Klámbúllunum (erótísku stöðunum) skal lokað, klippt á línu símasexins og klámsíðum skal eytt. Þingmenn Vg virðast nefnilega lifa í þeirri klámlausu sýndarveröld að hlutirnir hverfi með lagasetningum.

Þörfin fyrir þá þjónustu sem erótísku staðirnir, símasexið og annað í þeim dúr veita hverfur ekki með þessari lagasetningu. Menn munu enn sækja í hana og leitast eftir henni. Það eina sem myndi breytast, með að banna hana algjörlega og skera upp herör gegn henni, er að hún færi undir yfirborðið. Telja flutningsmenn frumvarpsins hana betur komna undir yfirborðinu en fyrir opnum tjöldum? Er betri músin sem læðist en sú sem stekkur?

Klám og kynlífsþjónusta er tilkomin vegna mannlegs eðlis. Þessi „iðnaður“ hefur fylgt mannkyninu frá upphafi. Vissulega hefur tæknin haft sín áhrif á þetta sem annað en þróunin hefur verið að mestu í eina átt í hinum vestræna heimi - þjóðir sýna meira umburðarlyndi. Það sem þótti ósiðsamlegt fyrir nokkrum áratugum, er sjálfsagt í dag.

Klám verður ekki stöðvað með lögum. Hvað er klám og hvað ekki er nokkuð sem fólk hefur almennt misjafna skoðun á. Erótík er manninum eðlileg, við erum kynverur og höfum okkar þarfir, misjafnar að vísu. Það hlýtur hver maður að sjá firruna sem felst í að banna nektardans og símaþjónustu einfaldlega vegna þess að sú þjónusta sem þar er veitt byggist ekki á öðru en hugarórum viðskiptavinarins og því sem fer fram í huga hans en ekki holdlegri snertingu. Fórnarlambið er ekkert og glæpurinn er enginn. Ef Kolbrún og stöllur hennar vilja hinsvegar halda því fram að hugarórar séu refsiverðir þá hefur Frelsarinn aðeins þetta að segja við þær:
Refsaðu mér!

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............