--->

Jólablað Viljans - desember 2000

Frjáls mæting – með

Ég er fylgjandi frjálsri mætingu í framhaldsskólum. Hvers vegna? Mjög einfalt, að halda áfram námi er val hvers og eins. Framhaldsskóli er ekki skylda, það er ekkert sem segir að þú eigir að halda áfram námi. Í háskólum er frjáls mæting, þar hafa nemendur val til að mæta á fyrirlestra. Hvað afsakar það að nemandi sem velur að fara í framhaldsskóla eigi að hafa minna val? Þetta er spurning um frelsi einstaklingsins!

Sumir benda á að fólk sé þroskaðra í háskóla. Skárra væri það nú, fólk hlýtur að þroskast með aldrinum. Einnig hefur verið bent á að mat kennara vegur svo mikið í framhaldsskólum að ekki sé hægt fyrir kennara að meta nemendur sem aldrei mæta í tíma. Ég skil ekki af hverju það á að hafa áhrif á einkunn hvort þú mætir í tíma eða ekki. Sumir mæta vel í tíma en sinna náminu illa, aðrir sofa jafnvel í tímum eða eru að gera allt annað en þeir eiga að vera að gera, þetta eru staðreyndir sem við hljótum að viðurkenna.

Sem betur fer erum við ekki öll eins frá náttúrunnar hendi. Við erum misjafnlega sterk á hverju sviði fyrir sig, sumir eru t.d. sterkir á raungreinasviðinu en aðrir á tungumálasviðinu. Því leiðist mörgum að þurfa að mæta í tíma þar sem megin þorri tímans fer í að útskýra hluti sem viðkomandi skilur. Þannig erum við að steypa alla í sama mót, sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi! Með því að skylda fólk til að mæta í alla tíma verður fólk þreytt og leiðist í skólanum, það kemur niður á afköstunum og verður þess valdandi að fólk verður óánægðara fyrir vikið. Einnig vill þetta skapa oft skvaldur í tímum sem minnkar vinnufrið hinna sem á kennslunni þurfa að halda.

Kostirnir sem ég sé í frjálsri mætingu eru fjölmargir: Fólk gæti einbeitt sér betur að þeim fögum sem það þarf að bæta sig í og fengi líka betra tækifæri til þess þegar í kennslustofunni væri bara fólk sem vildi og þyrfti á kennslunni að halda. Þetta myndi líka minnka álagið á kennara og þannig myndu þeir skila betri kennslu til þeirra sem vilja kennslu og þyrftu á henni að halda. Einnig myndi sá ógurlegi tími sem fer í mætingarskráningu nýtast í kennslu og þar með bættist umtalsverður tími við kennslutíma hvers árs. Ef við gefum okkur að rúmlega ein mínúta fari í kladdaskráningu að meðaltali, sem er varlega áætlað, þýðir það að í hverri viku fari að jafnaði heil kennslustund í það eitt að athuga hverjir séu mættir og hverjir ekki!

Þannig þið sjáið að kostirnir við frjálsa mætingu er ótvíræðir. Nám er val hvers og eins og því er þetta spurning um frelsi einstaklingsins, námið yrði skemmtilegra auk þess sem frjáls mæting myndi stuðla að bættri og aukinni kennslu til þeirra sem þurfa á henni að halda, minnka álagið á kennara og lengja raunverulega kennslutíma verulega.

Því segi ég, veljum frelsi til náms, frjáls mæting er málið!