--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
22.11.2000
Undan oki Fujimoris

Alberto Fujimori, forseti Perú, sagði af sér í fyrrakvöld. Hvort það muni binda enda á stjórnarkreppuna sem hefur verið í Perú síðasta árið munu næstu vikur og mánuðir leiða í ljós. Kosningar voru haldnar á landinu í ár og voru menn Fujimoris ásakaðir um kosningasvindl. Í september var Fujimori í sviðsljósinu vegna hneykslismáls þegar fjölmiðlar sýndu myndband þar sem Vladimiro Montesinos, yfirmaður leyniþjónustunnar, mútaði þingmanni úr röðum stjórnarandstæðinga.

Fujimori er landbúnaðarverkfræðingur að mennt, lærði í Frakklandi og Bandaríkjunum. Hann er sonur japanskra innflytjenda, fæddur 1938 í Lima, höfuðborg Perú. Hann var háskólakennari og stjórnandi sjónvarpsþáttar en bauð sig fram til forseta 1990 og sigraði óvænt frambjóðanda miðju- og hægrimanna, rithöfundinn Mario Vargas Llosa. Hann tók við völdum í landi þar sem efnahagurinn var í rúst og pólitískar skærur tíðar. Hann hóf einkavæðingu, kom á opnum markaði og náði þannig að stöðva óðaverðbólgu sem hafði verið áður. Þó þetta þýddi mikla blóðtöku fyrir almenning stuðlaði þetta að auknum hagvexti síðari hluta áratugarins.

Árið 1992 leysti hann upp þingið og dómstóla landsins, sem hann sagði að hindruðu stjórnvöld í baráttunni gegn uppreisn vinstrisinnuðu skæruliðasamtakanna Hins skínandi stígs. Stjórnarandstæðingar sögðu hann hinsvegar vilja koma í veg fyrir alla gagnrýni á ólýðræðislega stjórnarhætti. Almenningur leit hinsvegar fram hjá þessu þegar leiðtogi skæruliða var handsamaður og 1995 kom Fujimori aftur á fót þingi og dómstólum landsins auk þess sem hann endurritaði stjórnarskrá landsins. Hafa stuðningsmenn hans haft meirihluta á þingi síðan þá.

Fujimori var endurkjörinn 1995 og hafði stuðning fólksins fyrir framgöngu sína gegn skæruliðum og fyrir að hafa stuðlað að stöðugleika í efnahagslífinu. Almenningur leit á einræðislega tilburði hans sem nauðsynlega í baráttu hans við skæruliða. Margir bentu á að hann beitti sömu tilburðum gegn andstæðingum sínum á þingi, notaði leyniþjónustuna undir stjórn Montesinos gegn þeim og væri með puttana í dómstólum og fjölmiðlum landsins, auk þess að nota opinbera sjóði í eigin þágu og kosningabaráttu.

Þessari gagnrýni óx fiskur um hrygg þegar hann tilkynnti um framboð sitt til þriðja kjörtímabils en stjórnarskráin, sem hann hafði sjálfur endurritað, kvað á um hámark tvö tímabil. Þegar stjórnarskrárréttur áréttaði að hann mætti ekki bjóða sig fram í þriðja skipti, rak hann nokkra af dómurunum.

Bæði Bandaríkjastjórn og Samtök Suður-Ameríkuríkja lýstu yfir áhyggjum vegna kosningamisferlis Fujimoris. Talið er að yfir milljón atkvæða hafi verið fölsuð. Alejandro Toledo, fyrrv. hagfræðingur við Alþjóðabankann, virtist samkvæmt skoðanakönnunum hafa svipað fylgi og Fujimori en svo fór að Fujimori vann kosningarnar, með kosningasvidli að flestra mati. Einnig náði hann aftur meirihluta á þingi eftir að nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn gengu til liðs við menn forsetans, að því er talið var vegna gífurlegra mútugreiðslna, eins og sannaðist síðar með myndbandinu af Montesinos.

En nú eru dagar Fujimoris í embætti taldir.

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............