--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
4.1.2001
Ríkishúmorinn

Nú eru áramótin liðin og við heilsum nýju ári og nýrri öld, vonandi sem flest, með bros á vör. Einn af hinum árlegu fylgifiskum nýársins er umræðan um Áramótaskaupið hverju sinni.

Áramótaskaupið er einn af elstu dagskrárliðum Ríkissjónvarpsins og hefur áunnið sér mikla hefð á þeim þremur áratugum sem það hefur verið sýnt. Í mörgum fjölskyldum þykir það nær trúarleg athöfn að koma sér saman fyrir framan stofusjónvarpið og horfa á skaupið.

Skaupið byrjar og tæplega klukkutíma löng langavitleysan hefst. Skaupið þetta árið svar sig í ættina með venjubundnum söngatriðum og mikilli búningaveislu. Meirihluti textagerðarinnar í textunum var tralla-lí og hopp-og-hí en umgjörðin og búningarnir skörtuðu ekki sama andleysinu, hvergi var þar til sparað. Volkswagen-umboðið Hekla virtist hafa fengið ágætis auglýsingu fyrir nýju Bjölluna í handriti skaupsins og helstu dagskrárliðir Skjás eins voru kynntir í andvanafæddum spéspegli. Ekki nema von að enginn vildi láta skrifa sig fyrir handritinu.

Þegar klukkan sló hálf tólf stóðu þeir sem ekki voru enn staðnir upp frá sjónvarpinu og leyfðu útvarpsstjóranum að halda sína ræðu yfir tómri stofunni - annað dæmi um ellihruma dagskrá Ríkissjónvarpsins. Fólk sneri sér að öðru og höfðu allir á orði hve slappt skaupið hefði verið.

Svona er það, ár eftir ár - fólk kvartar undan lélegu skaupi, en samt horfir það, af einskærri trúrækni, ómissandi hluti af áramótadagskrá fjölskyldunnar, rétt einsog útvarpsmessan á aðfangadag.

Vikuna eftir gamlárskvöld eru svo lesendabréf dagblaðanna og dægurmálaþættir útvarpsstöðvanna uppfullir af kvörtunum fólks yfir hve lélegt skaupið hafi verið og botninum sé endanlega náð. Handritshöfundum skaupsins tekst þó einhvern veginn alltaf að „botna“ sjálfa sig og heima situr þjóðin og horfir. Horfir af trúrækni.

Þó leynist grátbrosleg kómedía í þessu öllu saman. Þjóðin fylkist fyrir framan sjónvarpið ár eftir ár og verður fyrir vonbrigðum ár eftir ár. Fáir virðast þó átta sig á þeirri sorglegu staðreynd að hildarleikurinn er borgaður úr okkar eigin vasa, vasa skattgreiðenda.

Útvarpsstjóri Markús Antonsson talaði um ríkisrekna afþreyingu í viðtali fyrir nokkrum misserum. Þegar flaggskip innlendrar dagskrárgerðar RÚV og þar með flaggskip ríkisafþreygingunnar er ekki betra en þetta, er þá nema von að sífellt fleiri og fleiri spyrji sig þeirrar réttmætu spurningar, hvers vegna ekki sé búið að einkavæða RÚV fyrir löngu.

Er því nema von að maður spyrji enn og aftur: Hvers vegna er ekki búið að einkavæða RÚV fyrir löngu?

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............