--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Þri. 20. febrúar 2001
„Hvíta Ísland“

Þjóðernishyggja er ekki ný á nálinni. Hún hefur kallað stríð og hörmungar yfir heiminn og kostað tortímingu heilu þjóðanna. Allir þekkja dæmi um slíkt í sögunni, hvort heldur sem um var að ræða þjóðarmorð herraþjóða í nýlendum sínum eða ofsóknir ríkisins gegn minnihlutahópum í eigin landi.

Þjóðernishyggjan er sumstaðar rótgróin. Fyrir botni Miðjarðarhafs, á Írlandi, á Balkanskaga og víðar hefur hún verið valdur að átökum og stríðum, sem kostað hafa þúsundir og milljónir manna lífið.

Fyrir u.þ.b. 70 árum komust nazistar til valda í Þýskalandi. Þjóðverjar höfðu þurft að þola kreppu og niðurlægingu eftir fyrri heimstyrjöldina og hlaut því boðskapur nazista góðan hljómgrunn. Lausn Hitlers á vandanum var m.a. útrýming gyðinga og annarra minnihlutahópa. Einnig skyldi kynstofninn hreinsaður og voru fatlaðir því teknir af lífi og fleiri ómanneskjulegum aðferðum beitt við að varðveita hreinleika hins aríska kynstofns.

Þjóðernishyggjan er runnin af slæmum rótum, rétt eins og hatur og öfund, enda náskyld. Það er því ekki nema von að þeir sem vilja kenna sig við þjóðernishyggju eru oft karlmenn með lélega sjálfsmynd, mikla minnimáttarkennd og hafa e.t.v. orðið undir í lífsbaráttunni. Félagar í FÍÞ eru að 4/5-hluta karlmenn á aldrinum 18-30 ára.

Á Íslandi hefur Félag íslenskra þjóðernissinna starfað í nokkur misseri. Í nóvember síðastliðinn héldu þeir fund og komu í kjölfarið fyrir alþjóð til að tilkynna að þeir hyggðu á framboð í næstu kosningum. Það er því ekki nema von að maður spyrji sig hver séu þeirra helstu baráttumál.

Á heimasíðu sinni kemur m.a. fram að þeir vilja hindra frekara landnám fólks sem ekki er af evrópskum uppruna, nokkuð sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Þeir vilja koma í veg fyrir afskipti erlendis frá, viðhalda íslenskri tungu, menningu, „kynstofni“ og hefja þjóðernishyggju til vegs og virðingar. Þeir vilja draga úr erlendum áhrifum, koma í veg fyrir að erlent fólk stundi hér vinnu og efla íslenskan landbúnað. Að lokum lýsa þeir hátíðlega yfir að Ísland sé fyrir Íslendinga.

Hver heilvita maður sér þröngsýnina og vitleysuna sem í skín í gegnum málflutning þeirra. Ekki aðeins vilja þeir loka hér vinnumarkaðnum fyrir erlendu vinnuafli heldur vilja þeir að kvótakerfið „verði endurskoðað með tilliti til byggðarmála“. Þeir vilja m.ö.o. vinna gegn lögmálum markaðarins.

Þeir lýsa yfir hátíðlega að Ísland sé fyrir Íslendinga. Slíkt fær Frelsarann til að eiga erfitt með að verjast brosi, svo barnsleg er þessi yfirlýsing og á skjön við heilbrigða skynsemi. Hún er aðeins til þess fallin að dæma fylgisveina FÍÞ endanlega út í horn.

Hér verður ekki stefnuskrá FÍÞ rakin frekar, fólki er þess í stað bent á heimasíðu félagsins. Þeir afhjúpa best sjálfir eigin heimsku og vanþroskaða þankagang. Sumir hafa lýst yfir áhyggjum með að umræðan um félagsskapinn verði til að vinna honum frekara fylgi og hafa jafnvel sumir viljað banna félagsskapinn. Það verður að teljast vanhugað, málflutningur FÍÞ-manna er betur kominn á yfirborðinu en undir því. Umræðan getur ekki annað en verið til þess að afhjúpa þann illa boðskap sem félagið flytur. Þetta hafa forsvarsmenn félagsins Jón og Hlynur Freyr Vigfússynir sýnt í þeim viðtölum sem þeir hafa birst í.

Á heimasíðu félagsins segir m.a.: „Hver sá sem er ekki með höfuðið á kafi í afturendanum á sér hlýtur að vita […] að þetta litaða fólk er EKKI fólk „eins og við“. Ef það væri fólk eins og við þá hefði það byggt upp mannvænleg samfélög og væri ekki að flæða yfir okkur til að njóta ávaxta okkar sköpunargáfu og erfiðis, rétt eins og rottur eða engisprettur.“

Í laugardagsblaði DV birtist viðtal við annan af forsvarsmönnum félagsins, Hlyn Frey Vigfússon. Í viðtalinu segir Hlynur m.a.: „Það þarf engan snilling eða erfðafræðivísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðursælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því.“

Í viðtalinu neitar Hlynur því að vera nazisti og segir félagið ekki nota baráttuaðferðir nýnazista; ofbeldi, sprengingar o.þ.h. Það er því nokkuð athyglisvert að á heimasíðu félagsins, þar má finna svör við „tíu algengustu aulaspurningunum ef þú ert þjóðernissinni“, er nazistahreyfingin í Þýskalandi Hitlers kölluð „klúbbur“ og spurningunni um hvort drepa eigi alla útlendinga er svarað á þessa leið: „Áhugaverð hugmynd en alls ekki á stefnuskrá félagsins“. Já, þá vitum við það, að mati FÍÞ-manna eru þjóðernishreinsanir „áhugaverð hugmynd“!

Á sömu síðu svara þeir spurningunni um hvað þeir hafi á móti lituðu fólki: „Þau eru alveg eins og við. Við erum ekki á móti innflutningi fólks eingöngu vegna litarháttar heldur vegna þess að það er öðruvísi að upplagi og innræti en við og þar að auki erum við alveg eins mikið á móti hvítum aumingjum eins og þér!“ Ég veit ekki um ykkur en ég tek það ekki nærri mér að hópur eins og Íslenskir þjóðernissinnar kalli mig aumingja. Ég ætla líka rétt að vona að flestir séu „öðruvísi að upplagi og innræti“ en þessi hópur fólks.

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............