--->

Þjóðernisrembingur

Þjóðernishyggja hefur í gegnum aldirnar kallað stríð og hörmungar yfir mannkynið og leitt af sér tortímingu heilu þjóðanna.

Þess vegna er ekki nema von að manni verði um og ó þegar maður sér fólk koma fram fyrir alþjóð og segja að nú þurfi fólk ekki lengur að óttast að vera litið hornauga af samfélaginu fyrir að viðra sínar þjóðerniskenndu skoðanir, til sé félagsskapur fyrir þetta fólk, kallaður Félag íslenskra þjóðernissinna.

Ástæðan fyrir þessari grein minni er að ég vil minna á hætturnar sem fylgja þessum hugsunarhætti. Fyrir u.þ.b. 70 árum komst hreyfing nasista til valda í Þýskalandi, hreyfing sem kallaði mestu hörmungar 20. aldarinnar yfir mannkynið. Þjóðverjar höfðu þurft að þola kreppu og niðurlægingu eftir fyrri heimsstyrjöldina og hlaut því boðskapur nasista góðan hljómgrunn. Þeir skelltu skuldinni á gyðinga og aðra minnihlutahópa og stefndu að útrýmingu þeirra.

Þjóðernishyggja er ekki ný af nálinni. Sums staðar er hún rótgróin, t.d. fyrir botni Miðjarðarhafs og á Írlandi. Þjóðernishyggjan er runnin af slæmum rótum, rétt eins og hatur og öfund, enda náskyld. Það er því ekki nema von að þeir, sem vilja kenna sig við þjóðernishyggju, eru oft karlmenn með lélega sjálfsmynd, mikla minnimáttarkennd og hafa e.t.v. orðið undir í lífsbaráttunni.

Íslenskir þjóðernissinnar vilja, svo eitthvað sé nefnt, hindra frekara landnám fólks sem ekki er af evrópskum uppruna, koma í veg fyrir afskipti erlendis frá, viðhalda íslenskri tungu, menningu, kynstofni" og hefja þjóðernishyggju til vegs og virðingar. Þeir vilja draga úr erlendum áhrifum, koma í veg fyrir að erlent fólk stundi hér vinnu og efla íslenskan landbúnað. Að lokum lýsa þeir hátíðlega yfir að Ísland sé fyrir Íslendinga.

Eins og hverjum, sem les þetta, er ljóst, vilja þeir stuðla að einangrun landsins að norður-kóreskri fyrirmynd og auka ríkismiðstýringu. Auk þess vilja þeir leynt og ljóst auka hér mismunun og misrétti gagnvart þeim sem hingað hafa flutt og sest að, fólkinu sem aukið hefur fjölbreytni íslensks samfélags og eflt það. Hver sá, sem hefur snefil af hagfræðilegri þekkingu, sér að ef þjóðernissinnar kæmust til valda myndi landinu vera stefnt að feigðarósi.

Málflutningur þeirra er skertur allri heilbrigðri skynsemi og uppfullur af minnimáttarkennd og barnaskap. Þeir fela sig á bak við hugtök eins og gömul og góð gildi" en þegar öllu er á botninn hvolft eru þjóðernissinnar ekkert annað en afturhaldssamir sósíalískir rasistar.

Ágúst Flygenring :.: 6-R

Sjáið vitleysuna sjálf:
http://www.centrum.is/~fith/


net-viljinn 2000