--->

Ríkisstyrkir til landbúnaðar

Ágúst Flygenring 6-R - Hagfræði, febrúar 2001 - kennari: Bjarni Már Gylfason

Efnisyfirlit

Efnisyfirlit

Inngangur

Í ljósi sögunnar

Ríkisstyrkir til landbúnaðar í OECD-löndunum

Ríkisstyrkir til íslensks landbúnaðar

Beingreiðslur til sauðfjárbænda

Mjólk er góð - en ekki gefin

Ríkisstyrkir til landbúnaðar 1991-1998

Ríkisstyrkir til landbúnaðar sem hlutfall af heildarútgj. ríkissjóðs 1988-1998

Lokaorð

Heimildir

Inngangur

Í flestum löndum hins vestræna heims er innlendur landbúnaður styrktur í einhverri mynd. Mörg lönd hafa komið á beingreiðslukerfi og flest hafa tollakerfi sem tryggir innlendri framleiðslu ákveðið forskot í verðlagsmálum.

Hagsmunasamtök bænda eru víðast hvar það öflug að breytingar á kerfinu ganga yfirleitt hægt fyrir sig. Einstaka ríki hefur þó tekið upp þá stefnu að landbúnaður skuli vera arðbær og þær einingar framleiðenda (bændur) sem ekki standast þær kröfur sem markaðurinn gerir til þeirra skuli þá frekar snúa sér að einhverju öðru en að ríkið hlaupi undir bagga með þeim í formi styrkja af almannafé. Bestu dæmi þessa eru landbúnaðarstórveldin Ástralía og Nýja-Sjáland.

Í þessari stuttu ritgerð verða kostir og gallar ríkisstyrkja til landbúnaðar skoðaðir og reynt að líta á þróun þeirra hérlendis, hvort þeir séu að aukast eða minnka. Höfundurinn reynir að líta málin út frá hagfræðilegu sjónarmiði en hætta er á að skoðanir hans smitist út í textann og skal því ekki litið á ritgerðina sem fullkomlega hlutlaust verk. Þetta á einkum við þegar dregnar eru ályktanir, en þær eru þó alltaf studdar rökum og verða að vera metnar í ljósi þeirra. Tollar og innflutningshöft er sérstakur kapituli fyrir sig og í jafn stuttri ritgerð sem þessari verður því ekki komið við að fjalla um slíkar stjórnvaldsaðgerðir og áhrif þeirra, svo að vel sé. Því verður ekki fjallað um tolla og innflutningshöft í ritgerðinni, nema þá með mjög yfirborðskenndum hætti.

Í ljósi sögunnar

Það er ekkert nýtt að yfirvöld reyni að stuðla að landbúnaði og þá gjarnan á kostnað annars iðnaðar. Áður fyrr var þetta gert til að halda í gamla valdaskipan og lénsskipulag en frá dögum iðnbyltingarinnar hefur fólksfjöldinn horfið frá búskap og flutt í borgirnar og þar með hefur þjóðfélagið gjörbreyst.

Skýrt dæmi um afskipti yfirvalda áður fyrr er hve útbreidd bændaánauð var allt fram til 1900 og forystuhlutverk Breta í upphafi iðnbyltingarinnar. Ástæðan fyrir þeirri forystu var að þar voru ítök landeigenda minnst í Evrópu og borgarastéttin náði því fljótt að skipa sér sess í stjórn landsins. Lönd sem einblíndu á að halda fólki til sveita við landbúnað, með bændaánauð og öðrum tiltækum ráðum, sátu aftar á merinna og náðu því ekki að tileinka sér hina nýju aðferðarfræði iðnbyltingarinnar. Skýrasta dæmi þessa var Rússland og lönd austanverðrar Evrópu.

Þegar Adam Smith ritaði Auðlegð þjóðanna 1776 var merkantílisminn enn við lýði hjá flestum ríkjum Evrópu. Tollar og höft voru aðalsmerki þeirrar stefnu og áttu þjóðir að sanka að sér sem mestum gullforða sem frekast var unnt. Þessu átti að ná fram með að flytja inn sem minnst en flytja þeim mun meira út. Hver þjóð átti að vera sjálfri sér nóg. Varð þetta til þess að vöruverð rauk upp úr öllu valdi á ýmsum vörum, sem nær ómögulegt var að framleiða í viðkomandi landi. Enginn efast um í dag að þetta hafi haft mikla óhagkvæmni í för með sér auk skorts á jafnvel nauðsynlegustu vörum svosem mat og klæðum.

Iðnbyltingin varð til þess að markaðir tóku að opnast í ríkara mæli. Sérhæfingin hóf innreið sína og viðskipti jukust milli landa og landsvæða. Þrátt fyrir að hverjum manni ætti að vera ljós sú hagkvæmni sem viðskipti manna á milli tryggir almenningi, sem svo kemur fram í lægra vöruverði og auknum kaupmætti, héldu menn lengi vel í tolla og höft, og gera jafnvel enn. Yfirlýstar ástæður slíkra aðgerða eru e.t.v. aðrar en afleiðingarnar eru eftir sem áður í meginatriðum þær sömu: hagkvæmni minnkar, vöruverð hækkar og kaupmáttur almennings minnkar.

Ríkisstyrkir til landbúnaðar í OECD-löndunum

Í skýrslu OECD, Distributional effects of agricultural support in selected OECD countries, segir m.a. að þrátt fyrir allt þá renni meirihluti ríkisstyrkja til stærri býla, þó oft megi e.t.v. skrifa það á viðleitni yfirvalda til að stuðla að stærri og hagkvæmari býlum. Einnig segir í skýrslunni: „Moreover, concentrating support on the largest farms does not encourage them to improve performance and hence has a cost in terms of the sector’s economic efficiency. Given the results of agricultural policies with regard to income, in relation to their cost, adopting targeted social policies would seem more appropriate."1

Hér má sjá töflu yfir ríkisstyrki til landbúnaðar sem hlutfall af landsframleiðslu í nokkrum OECD-löndum:

Mynd 12 Mynd 23

Einsog myndir 1 og 2 sýna okkur hafa ríkisstyrkir minnkað síðan 1986-88 í flestum löndunum sé miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Sker Tyrkland sig úr hvað þetta varðar en árið 1999 vörðu Tyrkir 8,3% af VLF í ríkisstyrki til landbúnaðar3. Einnig sést skýrlega á mynd 1 hve mikið hefur dregið úr ríkisstyrkjum í Nýja Sjálandi eða um 90% frá árunum 1986-88 til 1998. Talan fyrir OECD er í báðum tilfellum reiknuð án þess að taka Tékkland, Ungverjaland, S-Kóreu, Mexíkó og Pólland inn í dæmið. Árið 1999 námu ríkisstyrkir í OECD-löndum öllum alls 361 milljörðum Bandaríkjadala (1,4% af VFL) og höfðu aukist um 3% á milli ára.3 Hlutfall ríkisstyrkja í OECD-ríkjunum af tekjum bænda fyrir skatta fór úr 31% árið 1997 í 40% árið 1999 og voru þeir að 2/3-hluta komnir frá neytendum vörunnar beint og að 1/3-hluta komnir beint frá skattgreiðendum.

Stærsti hluti ríkisstyrkja fer til hrísgrjóna-, mjólkur- og sykurbænda4. Samkvæmt útreikningum OECD, greiða neytendur í hinum iðnvædda heimi u.þ.b. þriðjungi meira fyrir mat en þeir gerðu ef ríkisstyrkir til bænda yrðu aflagðir4.

Mynd 34

Mynd 3 sýnir m.a. hlutfall ríkisstyrkja af tekjum bænda fyrir skatta í viðkomandi löndum. Yfir 60% af tekjum japanskra bænda eru komnar frá ríkinu og um 45% af tekjum bænda innan Evrópusambandsins. Meðalgreiðslur til hvers bónda má sjá lengst til hægri á myndinni og er sú upphæð í þúsundum Bandaríkjadala. Sjá má, með að bera saman hlutfall ríkisstyrkja af tekjum og meðalgreiðslur til hvers bónda, hve mikill tekjumunur er á milli evrópskra og bandarískra bænda, þeir evrópsku hafa greinilega minni tekjur, m.ö.o. er framleiðsla hvers bónda minni en starfsbræðra þeirra vestanhafs. Tekjur þeirra japönsku eru svo enn minni. Lengst til vinstri má svo sjá hve mikinn kostnað hver íbúi viðkomandi lands ber af landbúnaðarstyrkjum viðkomandi ríkis. Hver Ný-Sjálendingur greiðir 1,2% af því sem hver Japani greiðir og 3,7% af því sem hver íbúi ESB-landanna greiðir. Þrátt fyrir að Bandaríkin og Evrópusambandið greiði álíka mikið til hvers bónda að meðaltali, er kostnaður hvers Bandaríkjamanns einungis um 8% af því sem hver íbúi ESB-landanna þarf að greiða.

Þrátt fyrir að ríkisstyrkir hafi minnkað verulega síðustu 10-15 árin sýna nýlegar tölur að síðustu tvö árin hafa þeir aukist yfir heildina um 3% meðal OECD-landanna.

Árið 1998 námu milliríkjaviðskipti með landbúnaðarafurðir 456 milljörðum Bandaríkjadala, þrisvar sinnum meira en 20 árum fyrr. Það kann að hljóma vel en á sama tíma hafa milliríkjaviðskipti með aðrar iðnaðarvörur þrefaldast4. Enn eru meðaltollar á landbúnaðarvörur um 40% á meðan tollar á aðrar iðnaðarvörur eru að meðaltali 10%, auk þess sem innflutningshöft eru víðsvegar enn mikil4.

Ríkisstyrkir til íslensks landbúnaðar

Ríkisstyrkir hafa verið nauðsynlegir íslenskum landbúnaði. Árið 1901 bjuggu 77,4% landsmanna í strjálbýli, 30 árum síðar var hlutfallið komið niður í 41,3% og 1940 33,1%5. Þróun atvinnuveganna fjögurra, landbúnaðar, fiskveiða, iðnaðar og þjónustu hefur verið á þessa leið síðustu sex áratugina:

Mynd 45

Einsog sjá má á myndinni hér að ofan fækkaði mjög í stétt bænda allt fram til 1990, en hefur haldist nokkuð stöðugt síðan þá, þó það hafi nokkur áhrif að fram að því voru vinnustundir eiginkvenna bænda meðtaldar að hálfu5. En síðustu fjögur ár hefur bændum a.m.k. ekki fækkað mikið hlutfallslega. Bændur hafa náð að tryggja sér ítök í samfélaginu og þannig staðið vörð um hagsmuni sína. Síðasta áratuginn hefur þó verið unnið markvisst að því að auka framlegð í landbúnaði og minnka ríkisstyrki til sauðfjár- og kúabænda.

Beingreiðslur til sauðfjárbænda

Nýr sauðfjársamningur tók gildi 1. janúar s.l. og nær til áranna 2001 til 2007. Þar er gert ráð fyrir að beingreiðslur á greiðslumark minnki úr 1.542 milljónum króna árið 2002 í 1.195 milljónir árið 20076 (m.v. verðlag mars 2000 en samningurinn er verðtryggður). Á móti koma greiðslur til þeirra bænda sem fengið hafa vottorð vegna gæðastýrðrar framleiðslu, verður þeirri fjárhæð deilt á heildarframleiðsluna, óháð kvóta og mun sú framleiðsla því lúta lögmálum markaðarins. Þar fyrir utan koma greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda, jöfnunargreiðslur, niðurgreiðslur á ull, vegna uppkaupa á greiðslumarki, vegna álags vegna uppkaupa á greiðslumarki auk annars kostnaðar, alls 3.154 milljónir króna (með beingreiðslunum) á Fjárlögum 2001. Þar af er 732 milljónum varið til uppkaupa á greiðslumarki.7

Framleiðsla kindakjöts hefur minnkað stórlega síðustu tuttugu árin. Árið 1980 voru framleidd 13.534 tonn kindakjöts en 1999 var hún komin í 8.644 tonn (36% minnkun). Árið 1985 voru framleidd 12.215 tonn kindakjöts og var þá neyslan á hvern íbúa 43,4 kg. Fjórtán árum síðar var neyslan á hvern íbúa 24,9 kg. Mismunurinn eru 18,5 kg.! Á móti hefur neysla landans á svína- og alifuglakjöti, sem er utan beingreiðslukerfisins, aukist verulega; um 156% á svínakjöti (úr 6,6 kg. í 16,9 kg.) og á alifuglakjöti um 68% (úr 6,3 kg. í 10,6 kg.) auk þess sem neysla á nautakjöti fór úr 10,7 kg. í 13,2 kg. á hvern íbúa8.

Af þeim 8.644 tonnum sem framleidd voru af kindakjöti árið 1999 voru 6.913 tonn seld innanlands og 1.038 tonn fóru í útfluttning. Offramboðið var því 693 tonn, eða 8%. Til samanburðar voru 4.706 tonn framleidd af svínakjöti sama ár og voru 4.688 tonn seld innanlands. Offramboð á svínkjöti var því 18 tonn eða 0,4%. 3.006 tonn voru framleidd af alifuglakjöti á árinu og 2.935 tonn seldust innanlands. Offramboð alifuglakjöts var því 71 tonn eða 2,4%9.

Það er því nokkuð ljóst að offramboð í íslenskum landbúnaði er mun minni þar sem ríkisstyrkja nýtur ekki við. Óhagkvæmninni er viðhaldið með styrkjum eða einsog segir í skýrslu OECD, sem vitað var áður í, „support […] does not encourage them to improve performance and hence has a cost in terms of the sector’s economic efficiency"1

Mjólk er góð - en ekki gefin

Stærsti útgjaldaliður landbúnaðarráðuneytisins eru beingreiðslur til kúabænda. Á fjárlögum fyrir árið 2001 eru útgjöld ríkisins vegna beingreiðslna vegna mjólkurframleiðslu 3.377 milljónir króna. Þar að auki bætist við lífeyrissjóðsframlag (4%) til Lífeyrissjóðs bænda upp á 135 milljónir króna og „verðtilfærslugjald á mjólk" er 270 milljónir króna. Bein útgjöld ríkisins vegna mjólkurframleiðslu eru því 3.782 milljónir króna, tæpir 3,8 milljarðar10.

Sambærilega upphæð kostar rekstur Háskóla Íslands en undir liðina „Kennsla, rannsóknir og önnur verkefni" fara 3.791,6 milljónir króna. Það segir þó ekki alla söguna því þegar búið er að taka inn í dæmið tekjur o.þ.h. er beinn kostnaður vegna HÍ, viðhald og tækjakaup meðtalin, 2.834,9 milljónir fyrir ríkissjóð11.

En hvernig er þessum milljörðum útdeilt til bænda? Beingreiðslur til bænda eru miðaðar við greiðslumark sem ákveðið er fyrir hvern mjólkurframleiðanda (bónda), það getur svo lækkað eða hækkað hlutfallslega eftir því hvað heildarsamningurinn við ríkið kveður á um.

Beingreiðslurnar eiga að nema 47,1% af áætluðum framleiðslukostnaði mjólkur12. Verðlagsnefnd búvara ákveður verð á mjólk hverju sinni. Lágmarksverð á mjólk til bónda frá 1. janúar 2001 er 71,08 kr. pr. ltr. og er þeirri greiðslu skipt þannig að 33,48 kr. eru í gegnum beingreiðslukerfið og 37,60 kr. koma frá viðkomandi afurðastöð13.

Þróunin síðustu ár hefur verið sú að framleiðsla hvers kúabónda hefur aukist en jafnframt hefur þeim fækkað. Mjólkurframleiðsla í landinu hefur haldist svipuð síðustu þrjá til fjóra áratugi á meðan fólksfjölgun hefur verið rúm 40%14. Mjólkurframleiðsla á hvern íbúa hefur því farið úr 533,2 ltr. árið 1965 í 384,5 ltr. árið 1999. Mjólkurframleiðsla árið 1980 var 466,9 ltr. á íbúa en salan sama ár nam 464 ltr. (m.v. fituinnhald) og var því mismunurinn 2,9 ltr. á íbúa. Nítján árum seinna, árið 1999, er þessi mismunur 27,5 ltr. Á sama tíma dregst saman neyslan á drykkjarmjólk um helming, úr 203 ltr. í 103 ltr. á íbúa. Landsmenn hafa því breytt neyslu sinni á mjólk stórlega, eða öllu heldur dregið úr henni. Á sama tíma eykst neysla á ostum og neysla á rjóma stendur í stað. Þess ber þó að geta að sölutölur eru „umreikn[aðar] í lítra mjólkur miðað við fituinnihald. Því gæti skekkja verið í dæminu þar sem framboð á fituskertum mjólkurvörum, léttmjólk og ostum, hefur aukist verulega síðustu ár.

Fólk gerir sér þó ekki grein fyrir því hve dýru verði mjólkurlítrinn er í raun og veru keyptur, því ef beingreiðslukerfið eitt og sér er tekið inn í reikninginn lítur dæmið svona út: Mjólkurlítrinn er seldur á 78 kr. út úr búð. Skattgreiðendur eru áður búnir að greiða 33,48 kr. og því er raunverulegt verð fyrir neytandann rúmar 111 kr. Dýr væri Hafliði allur!

Ríkisstyrkir til landbúnaðar 1991-1998

Tafla 115 (tölur í milljónum króna)

 

Ríkisstyrkir til landbúnaðar sem hlutfall af heildarútgj. ríkissjóðs 1988-1998

Mynd 516

Einsog sést á mynd 5 fór hlutfall landbúnaðarstyrkja af heildarútgjöldum ríkisins stórlega minnkandi í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-95, eða um 45%. Frá '95 hefur hlutfallið hinsvegar staðið í stað, jókst ögn '96-'97.

Það er því ekki laust við að maður velti fyrir sér tengslunum þarna á milli, þar sem Framsóknarflokkurinn hefur verið helsti flokkur bænda á Íslandi en Alþýðuflokkurinn var aftur á móti oft sakaður um að vera „andvígur" bændum.

Ef pólitískum pælingum er sleppt og litið á hvað stendur á bak við hina hlutfallslegu lækkun frá '91/'92 til '94/'95 má sjá á töflu 1 að beingreiðslukerfinu er komið á 1992 en á móti eru niðurgreiðslur landbúnaðarafurða skornar niður um rúm 80% og útflutningsuppbætur eru afnumdar 1993. Auk þess eru greiðslur til verðmiðlunar landbúnaðarins skornar niður um 3/4-hluta og „sérstakar greiðslur í landbúnaði" eru aflagðar '94.

Á sama tíma hefur hlutfall ríkisstyrkja af framleiðsluverðmæti íslensks landbúnaðar farið úr 74% árin 1986-88 í 64% árin 1997-99, þó er áætlað hlutfall fyrir 1999 68%, þannig að sveiflurnar geta verið töluverðar á milli einstakra ára. Ísland er enn í hópi þeirra þjóða sem styrkja landbúnað mest ef miðað er við hlutfall af framleiðsluverðmæti. Aðrar þjóðir með hátt hlutfall árin 1997-99 voru: Japan (61%), S-Kórea (65%), Noregur (66%) og Sviss (70%). Nánar er farið út í samanburð milli þjóða á bls. 5.

Lokaorð

Nú hef ég reynt að varpa ljósi á áhrif ríkisstyrkja í íslenskum landbúnaði og borið þá saman við það sem gerist erlendis. Niðurstaðan hlýtur að vera nokkuð sláandi. Það form landbúnaðar, sem nýtur ríkisstyrkja, stendur ekki undir sér. Aðrar greinar landbúnaðargeirans einsog svína- og alifuglarækt virðist ná að lifa ágætu lífi. Fjölmargir hagfræðingar og aðrir sérfræðingar hafa bent á beingreiðslukerfið letji menn til að hagræða og ná þeirri framleiðni sem til þarf til að sauðfjár- og mjólkurbúskapur standi undir sér. En hvað myndi ávinnast með að fella niður styrkjakerfi ríkisins til landbúnaðar?

Það er nokkuð ljóst að til að landbúnaður á harðbýlum stöðum, í litlum einingum, standi undir sér þarf ansi margt að breytast. Gjöfulustu landbúnaðarhéröð landsins eru í Árnessýslu og Eyjafirði og þar ætti landbúnaður að geta þrifist ágætlega, ef nokkurs staðar á landinu. Til að það náist þarf bændum þó að fækka, því offramboð er af kjöti og mjólk. Rekstrareiningarnar þyrftu einnig að stækka. Þannig ættu íslenskir bændur að geta rekið sín bú einsog hvert annað fyrirtæki, lotið lögmálum framboðs og eftirspurnar og hagað seglum eftir vindi. Þjóðin mynd líka spara 7 milljarðar á ári. Fyrir þjóð sem telur ekki nema 280 þús. íbúa eru það 25.000 krónur á hvern einstakling. M.ö.o. myndi hver fjögurra manna fjölskylda hafa 100 þús. krónum hærri ráðstöfunartekjur á ári. Það munar um minna.

Með auknum ráðstöfunumtekjum myndi hagur íbúanna batna, auk þess sem skattar hlytu að lækka og þar með hvatinn til vinnu og framkvæmda aukast. Fjárfestingar fólks myndu einnig aukast, þar sem það hefði nú meira á milli handanna. Þær fjárfestingar myndu skila arði, atvinnu og aukinni hagsæld. Margföldunaráhrif samfélagsins myndu því gera mikið úr þessum 7 milljörðum.

Í þessari stuttu ritgerð hefur lítið verið komið inn á áhrif tolla og innflutningshafta. Þau eru mjög mikil og ströng á Íslandi. Íslenskir garðyrkjubændur eru verndaðir með tollum og innflutningskvótum og því helst verð á grænmeti hér himinhátt. Slík höft og tolla þyrfti að fella niður, því kostnaður almennings af þeim er mikill. Ísland er ekki vel til þess fallið að rækta allar tegundir grænmetis og því er innlent grænmeti dýrt. Innflutningskvótar koma í veg fyrir að hingað sé flutt inn ódýrt grænmeti og því er grænmetisneysla Íslendinga sú minnsta á Norðurlöndunum. Hafa næringarfræðingar, ekki síður en hagfræðingar, bent á hve óhagstæð þessi stefna er. Ný-Sjálendingar og Ástralir hafa farið þá leið að fella niður alla verndartolla og innflutningshöft á matvöru og hefur hagkerfið notið góðs af því. Hafa margir hagfræðingar bent á stefnu þeirra sem fyrirmynd annarra. Markantílisminn ætti að tilheyra sögubókum en ekki hagstjórn nútímans. Vonandi að íslensk yfirvöld fari að átta sig á því.

Hver er þá framtíð íslensks landbúnaðar? Margir hafa bent á að Ísland sé vel til þess fallið að markaðssetja íslenskar landbúnaðarvörur sem vistvænar og að íslenskir bændur ættu í auknu mæli að snúa sér að vistrænum búskap. Vistvænar afurðir eru dýrari og njóta sífellt meiri vinsælda, sér í lagi vegna mikillar umræðu um erfðabreytt matvæli. Ef íslenskir bændur sköpuðu sér sérstöðu að þessu leyti ættu þeir betra með að markaðssetja vöru sína erlendis. Spurningin er hinsvegar hvort það svari kostnaði. Þá komum við aftur að lögmálinu um framboð og eftirspurn, eru einhverjar forsendur fyrir því að framleiða vöru sem stendur ekki undir kostnaði? Ef framleiðsla ákveðinna afurða íslensks landbúnaðar stendur ekki undir sér, sé ég ekki neinar forsendur fyrir því að halda framleiðslunni áfram, ekki frekar en annarri framleiðslu sem ekki stendur undir sér.

Því er það mín niðurstaða að beingreiðslur til íslenskra bænda skuli vera afnumdar í nokkrum skrefum á næstu árum. Því fé sem er varið í óhagkvæman landbúnað er ekki varið til annarra framkvæmda á meðan. Þarna er um háar fjárhæðir að ræða, sem gætu komið þjóðinni vel og aukið hagsæld þjóðarinnar ef þeim væri varið til framkvæmda sem skiluðu arði. Tolla og innflutningskvóta ætti einnig að afnema til að hér gæti kaupendur átt greiðan aðgang að erlendum mörkuðum með matvæli.

Heimildir

1) OECD, Distributal effects of agricultural support in selected OECD countries (AGR/CA(99)8/FINAL), bls 35, París, Frakklandi, nóvember 1999.

2) The Economist Newspaper, The Economist June 5th - 11th 1999, bls 123, London, Bretlandi, 23. tbl. 1999.

3) The Economist Newspaper, The Economist June 24th - 30th 2000, bls. 145, London, Bretlandi, 25. tbl. 2000.

4) The Economist Newspaper, London, The Economist March 25th - 31st 2000, A not-so-perfect market, fengið af http://www.economist.com/ , London, Bretlandi, 2000.

5) Bændasamtök Íslands, Hagtölur landbúnaðarins 2000, bls. 1, Reykjavík, júní 2000.

6) Ketill A. Hannesson, Sauðfjársamningurinn 2001-2007, fengið af http://www.bondi.is/wpp/bondi.nsf/pages/burekstur , Upplýsingaþjónusta landbúnaðarins, Reykjavík, 2000.

7) Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2001 (Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000) Seinni hluti: Lagagreinar og athugasemdir, bls. 143-144, Reykjavík, 2000.

8) Hagtölur landbúnaðarins 2000 (sjá 5. lið), bls. 10.

9) Hagstofa Íslands, Landshagir 2000, bls. 101, Reykjavík, 2000.

10) Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2001… (sjá 7. lið), bls. 143.

11) Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2001… (sjá 7. lið), bls. 95.

12) Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Orðskýringar, fengið af http://www.sam.is/frodleikur/ordskyringar.htm , Reykjavík, 2000.

13) Upplýsingarþjónusta landbúnaðarins, fengið af http://www.bondi.is/wpp/bondi.nsf/pages/Verdlgrandv , Reykjavík, 2000.

14) Hagtölur landbúnaðarins 2000 (sjá 5. lið), bls. 9.

15) Hagstofa Íslands, Landshagir 2000, bls. 203, Reykjavík, 2000.

16) Hagtölur landbúnaðarins 2000 (sjá 5. lið), bls. 29.